Kæri gestur!

Ég, undirritaður, vil nota tækifærið og bjóða þig velkomna/inn að sækja Eyjarnar heim. En fyrst vil ég aðeins segja þér frá mér. Ég er ekki innfæddur Vestmannaeyingur, heldur kom hingað fyrst sem nýútskrifaður sjávarlíffræðingur með fjölskyldu mína fyrir rúmlega tuttugu árum síðan.

Ég gerði mér ekki grein fyrir því þá að þetta ætti eftir að verða framtíðarheimili mitt en fljótlega áttaði ég mig þó á því að ég vildi hvergi annarstaðar vera og ákvað því að setjast að á Heimaey.

Á undanförnum árum hefur ferðaþjónustan hér tekið miklum breytingum en þó á engan hátt líkt og gerst hefur á meginlandinu, sem skýrist fyrst og fremst af því að þetta er eyjasamfélag og fjöldi ferðamanna mjög svo takmarkaður af samgöngum.

Kannski er það vegna þess að þetta er eyjasamfélag sem þurfti að vera sjálfbært löngu áður en orðið „sjálfbærni“ var fundið upp að í Vestmannaeyjum er að finna alla grunnþjónustu – svo sem lögreglu og læknaþjónustu, úrval matvöruverslana, tískuvöruverslanir og ýmis konar sérvöruverslanir.

Hér þrífst einnig fjölbreyttur iðnaður en í gegnum áranna rás hefur sjómennskan og fiskiðnaðurinn verið helsta atvinnugrein Eyjanna.

Undanfarin ár hafa Eyjamenn lagt mikið í að byggja upp vandaða og góða ferðaþjónustu sem nú er orðin kröftug atvinnugrein og ekki síst mikilvæg samfélaginu, hvað varðar menningu og þjónustu við íbúa.

Sem heimamaður vona ég að þú heimsækir Heimaey og njótir ekki bara gestrisni Eyjamanna og stórfenglegrar náttúru heldur einnig þeirrar fjölbreyttu og vönduðu þjónustu sem er í boði fyrir ferðamenn.

Ég er viss um að ef þú sækir okkur heim þá munt þú líkt og ég heillast af þessum einstaka stað. Vertu hjartanlega velkomin til Vestmannaeyja.

Páll Marvin Jónsson
Formaður Ferðamálasamtaka Vestmannaeyja