Strandlengja Heimaeyjar einkennist af fjölbreyttu landslagi; bröttum fjallstindum, gljúpu hrauni, þverhníptum fuglabjörgum, hömrum og grýttum og sendnum fjörum.

Heimaey stækkaði heilmikið í eldgosinu árið 1973. Fyrir gos var eyjan um 11.2 km2 en strax að því loknu mældist hún 13,44 km2. Síðan hefur hún minnkað vegna rofs.

Strandlengjan spannar í dag tæpa 30 km og við hana má finna marga af fallegustu stöðum Heimaeyjar. Þar er auðvelt að gleyma sér yfir óviðjafnanlegu útsýninu, horfa stöðugt í kringum sig en ekki niður fyrir sig.

Það er þó ástæða til að benda ferðamönnum á mikilvægi þess að gæta fyllstu varúðar á göngunni. Strandlengjan getur nefnilega verið erfið yfirferðar og því mikilvægt að fylgjast vel með því hvar er stigið niður fæti.