Í Vestmannaeyjaklasanum eru fjöldi hella, svo fagurra að varla er hægt að kalla þá annað en undraverk náttúrunnar

Marga þeirra er aðeins hægt að nálgast með bát en suma þeirra má heimsækja á tveimur jafnfljótum.

Þekktasti hellirinn er líklega Klettshellir, sá stærsti í Vestmannaeyjaklasanum. Hljómburður hans er einstakur og eru skipulagðar ferðir í hann frá Heimaey.

Í Hænu er kafhellir sem margir telja einn af þeim fegurri. Í honum fellur ljósið einkennilega á hellisloftið, hafflötinn og veggina en birtan skýrist af neðansjávaropi við vesturenda hans. Í hellinum er óviðjafnanlegt að vera við sólarlag þegar mikil litadýrð myndast þar inni.

Í Stórhöfða eru Fjósin, við Sölvaflá er Selhellir og Litli Höfðahellir hefur þá sérstöðu að hægt er að komast í hann af landi og úr sjó.

Þá eru í Súlnaskeri og Hellisey hvelfingar sem stundum eru taldar með þegar rætt er um hella eyjanna. Allir eiga hellarnir það sameiginlegt að vera stórfenglegir að sjá á sinn einstaka hátt.