Stafsnes er einn fegursti staður á Heimaey og er útsýni þaðan til úteyjanna í suðri stórfenglegt

Mest er fegurðin síðsumars, þegar kvölda tekur. Nesið er langt og mjótt, það gengur út frá Dalfjalli og myndar með því lítinn fjörð. Í botni þess er Stafnesfjara.

Það er fyrirhafnarinnar virði að gera sér ferð út í Stafsnes, þó ekki sé leiðin þangað sú greiðfærasta. Til að komast þangað þarf að ganga úr Herjólfsdal og upp á Dalfjall. Þá tekur við brött ganga niður í Stafsnes. Gangan upp er nokkuð erfið, því hlíðarnar eru nær lóðréttar á tíðum.

Þó það kunni að freista að fá sér sundsprett í þessu ólýsanlega fagra umhverfi er vegfarendum eindregið ráðið frá því, þar sem straumar eru miklir og geta verið hættulegir.