Ekki eru allir safnastarfsmenn jafnkrúttlegir og hann Tóti lundi sem tekur á móti gestum Sæheima, fiska- og náttúrugripasafns Vestmannaeyja.

Þar á hann heima og hefur gert síðan hann fannst einn og yfirgefinn í lundabyggð þegar hann var aðeins um viku gamall. Tóti fæddist sex vikum síðar en vanalegt er og gat því ekki fylgt hinum lundapysjunum eftir, þegar þær voru reiðubúnar að yfirgefa holur sínar.

Safnið var opnað árið 1964 og er það elsta sinnar tegundar á Íslandi. Þar má skoða ýmislegt fleira áhugavert en Tóta lunda. Þar eru meðal annars sjóker með lifandi fiskum og ýmiskonar botndýrum sem einkenna Norður-Atlantshafið. Einnig er þar snertibúr þar sem gestir fá tækifæri til að handfjatla krabba, krossfiska, ígulker og sprettfiska.

Á safninu eru flestir íslenskir varpfuglar uppsettir ásamt eggjum þeirra, auk þess að þar má sjá fjölda náttúrugripa.