Vel er hægt að sjá ummerki eldgossins árið 1973 um alla Heimaey

Eyjan stækkaði mikið í gosinu, fyrir það var hún um 11,2 km2 en strax eftir gos mældist hún um 13,44 km2. Síðan hefur hún minnkað nokkuð vegna rofs. Í austurhluta bæjarins er á mörgum stöðum hægt að sjá hvar eldgosið stöðvaðist.

Mikið þrekvirki var unnið þegar notast var við hraunkælingu til að stöðva framgöngu þess en það sést best til móts við FES og gömlu fiskiðjuna á horni Strandvegs og Kirkjuvegs. Þar er hraunkanturinn tignarlegur að sjá í dag en auðvelt er að ímynda sér hversu ógnvænlegur hann var þegar gosið var í hámarki.

Á tveimur stöðum í bænum stöðvaðist hraunið rétt við hús. Rústir þeirra má sjá í dag, annars vegar við Vestmannabraut, þar sem hægt er að sjá rústir Blátinds, og hins vegar við Nýjabæjarbraut, þar sem sést í húsgafl við enda götunnar.