Vestmannaeyjar eru draumastaður fuglaáhugamannsins, enda eru þær kjörið landsvæði fyrir sjófugla, sem kjósa sér varpsvæði á syllum í sæbröttum hömrum eða á bröttum grasbölum.

Frá Vestmannaeyjum er jafnframt stutt í gjöful fiskimið þar sem fuglarnir geta aflað sér fæðu og þar eru vágestir fátíðari en á öðrum stöðum.

Þeir sjófuglar sem verpa við Eyjar eru ýmist staðfuglar eða farfuglar. Algengustu sjófuglar við Vestmannaeyjar eru fýll, súla, langvía, álka og lundi. Einnig eru þar skrofur, storm- og sæsvölur, stuttnefjur og teistur. Aðrar tegundir sjófugla koma sem farfuglar, fargestir eða vetrargestir.

Fremstur meðal jafningja er lundinn, með sitt skrautlega nef og blíðu augu. Hann er í senn einkennisfugl Vestmannaeyja og sameiningartákn Eyjamanna. Hann býr í Vestmannaeyjum yfir vor- og sumarmánuðina og myndar þar eina mestu lundabyggð í heimi en meira en 1,1 milljón lundapara verpir í Eyjum.

Lundinn er svartur á bakinu, með hvíta bringu og er grár umhverfis augun. Hann hefur skrautlegt nef sem er rákótt með rauðum, bláum og gulum lit. Nokkur afbrigði eru til af þessum litum og ber lundinn mismunandi nöfn eftir þeim; konungur, prins, drottning, kolapiltur, toppari og sótari.

Lundinn gerir sér hreiður í grösugum brekkum upp af björgum en göngin að hreiðurstæði hans geta verið allt að 1,5 metrar. Lundinn er einkvænisfugl og heldur jafnan tryggð við maka sinn ævilangt.

Um miðjan apríl fara fyrsu lundarnir að sjást við Eyjar en í byrjun maí „taka þeir heima“ fyrir alvöru. Kynþroska karlfuglar koma fyrstir, að jafnaði um viku á undan kvenfuglunum. Ef kvenfuglarnir skila sér ekki finna karlfuglarnir sér nýjan maka. Ef hins vegar fyrri maki kemur aftur tekur karlinn hann fram fyrir þann nýja. Þessi hegðun virðist einstök meðal fugla.

Aðalvarptíminn hefst um 20. maí og stendur fram í fyrstu viku júní. Lundinn verpir aðeins einu eggi. Útungunartíminn er um sex vikur og líða svo sex til sjö vikur frá því að pysjan kemur úr eggi þar til hún yfirgefur hreiðrið. Báðir foreldrarnir sjá um uppeldi pysjunnar og eiga í fullu fangi með það, því hún er sísvöng. Foreldrarnir koma um tíu sinnum á dag með mat, 4–20 sandsíli eða fiskseiði í hvert sinn.

Í september, þegar pysjan hefur yfirgefið holu sína, fer lundinn sína leið en snýr aftur sjö mánuðum síðar. Í þessa sjö mánuði heldur hann sig á hafi úti. Yngri fuglar þvælast víða um höf, halda sig meðal annars við strendur  Nýfundnalands.

Lundar af báðum kynjum eru um 20 cm á hæð og vega að meðaltali um 500 grömm, sem gerir það nokkuð flókið verk að greina á milli þeirra. Lundar eru illfleygir en afar góðir sundfuglar. Þeir geta flogið allt að 80 kílómetra á klukkustund og kafað niður á 60 metra dýpi. Meðallundi lifir í um 25 ár en sá elsti sem vitað er um varð 42 ára.