Fjölmargar hvalategundir sjást reglulega við Vestmannaeyjar

Þrátt fyrir að ekki séu skipulagðar hvalaskoðunarferðir frá Vestmannaeyjum bregður hvölum oft fyrir á skipulögðum ferðum fyrirtækjanna Rib Safari og Viking Tours sem bjóða bátsferðir frá Eyjum.

Það er enda mikið af hvölum í hafinu umhverfis Vestmannaeyjar. Til að mynda halda á hverju sumri stórar fjölskyldur háhyrninga til við Vestmannaeyjar, þangað sem þær koma í fæðuleit. Rannsóknir hafa sýnt að við Vestmannaeyjar halda sig allt að 100 einstaklingar af þeirri tegund sem hægt er að greina í sundur á ljósmyndum.

Aðrar tegundir sem sjást reglulega nálægt Eyjum eru hrefnur, hnísur og grindhvalir. Stórhvelin halda sig utar en á ákveðnum tímum er töluvert af hnúfubak við Vestmannaeyjar.