Fáir áfangastaðir fuglaáhugamanna standast samanburð við Vestmannaeyjar

Þar er að finna fjölbreytta bjargfugla- og sjófuglabyggð, þar sem gnægð er af lunda, langvíu, fýl, álku, ritu og teistu. Einnig verpa þar bæði sjósvala og skrofa en Vestmannaeyjar eru einu varpstöðvar tegundanna á Íslandi.

Lundinn er samofinn ímynd Vestmannaeyja og ekki að ástæðulausu. Eina stærstu lundabyggð landsins er að finna þar. Lundi verpir í öllum úteyjum og eru stórar varpstöðvar í Heimaey. Fuglinn heldur sig á hafi úti yfir vetrarmánuðina en þegar líða tekur á apríl fer hann að koma að eyjunum og undirbúa varp. Yfirleitt er lundinn sestur upp í björgin í kringum 20. apríl.

Í Heimaey eru varpstöðvar í Stórhöfða, á Sæfelli og í Dalfjallinu, þar sem tilvalið er að fylgjast með lunda. Einnig má oft sjá lunda sitja á sjónum eða á flugi þegar gengið er eftir Ofanleytishamri. Frá Heimakletti eða Litlaklifi er einnig líklegt að sjá honum bregða fyrir. Á norðurhluta Stórhöfða er fuglaskoðunarhús sem snýr að Raufinni, þar sem er nokkuð þétt lundabyggð og því tilvalið að fylgjast með lunda þaðan.