Undantekningarlaust skal tekið tillit til veðurs, því það getur breyst á skömmum tíma.

Heimaey er nánast umkringd fjöllum og kostur er að hægt er að ganga á þau öll, þó þau séu miskrefjandi

Eldfell, Helgafell og Sæfell eru þægileg uppgöngu í samanburði við hin.

Þá er skemmtilegt að ganga á Stórhöfða. Á sumrin iðar hann af fuglalífi og fuglaskoðunarhús er í Höfðanum, þar sem gaman er að staldra við og fylgjast með lundanum leika sér í uppstreyminu.

Dalfjall dregur nafn sitt af hinum þekkta Herjólfsdal og hefur löngum verið talið skemmtilegt viðureignar. Þaðan er hægt að ganga á Blátind, annað hæsta fjallið á Heimaey.

Einnig er hægt er að ganga eftir háhryggnum, yfir Eggjarnar svokölluðu og upp á Molda, þar sem flaggað er á Þjóðhátíðum, og þaðan niður Hána en þá er komið niður við hafnarsvæðið.

Heimaklettur er alltaf vinsæll til uppgöngu, enda hæsta fjall Eyjanna eða 283 metrar. Efsti hluti Heimakletts heitir Háukollar og þaðan er hægt að virða fyrir sér allar Vestmannaeyjar og horfa alla leið „upp á land“. Stigar hafa verið lagðir á nokkrum stöðum til auðvelda uppgöngu á „Klettinn“.

Hægt er að ganga af Heimakletti út í Ystaklett en sá leiðangur er tæplega á færi annarra en þeirra sem vel til þekkja.

Klifið er heldur krefjandi þar sem hluti leiðarinnar er genginn í sandi sem gjarnan rennur undan fótum manns. Kaðall liggur þó eftir gönguleiðinni til stuðnings. Bergið efst í Klifinu er frekar laust í sér og getur skapað hættu sem allir sem þangað rata ættu að vera meðvitaðir um.

Líkt og gildir um önnur landsvæði á Íslandi er mikilvægt er að kynna sér aðstæður vel áður en haldið er af stað í fjallgöngu í Vestmannaeyjum og ekki úr vegi að leita fyrst upplýsinga hjá heimamönnum sem vel þekkja til.