Vestmannaeyjar eru sannkölluð paradís þeirra sem kunna að meta fallegar gönguferðir. Í Heimaey er fjöldi gönguleiða auk þess að nánast er hægt að ganga hringinn í kringum eyjuna eftir ströndinni allri.

Vestmannaeyjar eru sannkölluð paradís þeirra sem kunna að meta fallegar gönguferðir. Í Heimaey er fjöldi gönguleiða auk þess að nánast er hægt að ganga hringinn í kringum eyjuna eftir ströndinni allri.

Vinsælt er að ganga um nýja hraunið og skoða ummerki Heimaeyjargossins árið 1973. Hægt er að komast að hrauninu frá mörgum stöðum en ein algeng og góð leið er upp tröppur frá Kirkjuvegi.

Meðal annars er hægt að ganga inn í gíg Eldfells en í honum miðjum stendur tilkomumikill kross. Einnig er vert að ganga um gamla hraunið en fátt stenst það að ganga eftir hamrinum endilöngum á björtum sumardegi, þegar síðdegissólin skín.

Skansinn er einnig fallegt svæði en þaðan er meðal annars hægt að ganga meðfram strandlengjunni og í nýja hraunið.

Þá er hægt að komast í Urðafjöru frá Skansinum og fara að Flakkaranum eða halda áfram eftir Gjábakkafjöru og út í Urðavita.

Herjólfsdalur skipar mikilvægan sess í sögu Vestmannaeyja. Gaman er að ganga inn í dalinn og áfram að Mormónapollinum og minnisvarðanum um mormónana. Minnisvarðann – engil sem horfir út á haf – reistu afkomendur íslenskra vesturfara til minningar um þá 400 Íslendinga sem tóku mormónatrú og fluttust vestur um haf, til Utah í Bandaríkjunum á árunum 1854–1914.

Á leiðinni að Mormónapollinum er tilvalið að skoða Kaplagjótu en hún dregur nafn sitt af því að hestum var varpað þar niður til þess að farga þeim, þar sem ekki mátti leggja sér hrossakjöt til munns lengi vel á Íslandi.

Ekki má gleyma Stórhöfða en gönguleið er í kringum hann allan. Á höfðanum eru kindur á beit og hann iðar af fuglalífi á sumrin. Hægt er að halda göngunni áfram eftir Sæfellinu og suður fyrir flugbrautina en þá er komið að Helgafelli.

Eldfell stendur því næst þar sem gamla og nýja hraunið mætast.