Heimsókn á gosminjasýninguna í Eldheimum er kjörin leið til að fræðast um eldgosið í Vestmannaeyjum árið 1973, sem án efa telst til stærstu náttúruhamfara Íslandssögunnar

Gosið hófst aðfararnótt  23. janúar 1973 á Heimaey, einu byggðu eyjunni í Vestmannaeyjaklasanum, og stóð yfir í rúmlega 5 mánuði. Nær allir íbúar Heimaeyjar þurftu að yfirgefa heimili sín í skyndi og flýja eyjuna. Margir sáu húsin sín, sem og megnið af eigum sínum, aldrei aftur en hraun og aska eyðilögðu þriðjung byggðarinnar.

Fyrir gos bjuggu um 5.300 manns í Vestmannaeyjum. Allt þetta fólk, nema um 200 manns sem urðu eftir við björgunarstörf, flúði til meginlands Íslands þar sem það bjó í bráðabirgðahúnæði og beið á milli vonar og ótta eftir því hvað framtíðin bæri í skauti sér.

Á sýningunni í Eldheimum er skyggnst inn í mannlífið og umhverfið í Vestmannaeyjum fyrir gos og hvernig náttúruhamfarirnar 1973 gripu inn í samfélagið og líf fólksins. Miðpunktur sýningarinnar er húsið sem stóð við Gerðisbraut 10, heimili Gerðar Sigurðardóttur, Guðna Ólafssonar og þriggja ungra barna þeirra. Það grófst undir ösku en hefur nú verið grafið upp.

Á sýningunni er einnig farið yfir þróun Surtseyjar, eyjunnar sem reis úr hafi sunnan við Heimaey árið 1963. Eldgosið í Surtsey stóð yfir í nær 4 ár. Eftir gosið var Surtsey gerð að lokuðu náttúruverndarsvæði, sem gerði vísindaheiminum mögulegt að fylgjast með hvernig nýtt líf og vistkerfi verður til. Surtsey hefur verið á heimsminjaskrá UNESCO síðan 2008.