Snemma árs 2017 var bókasafni Vestmannaeyja afhent eitt veglegasta fágætisbókasafn landsins en í því eru hvorki meira né minna en 1500 bækur

Í safninu, sem ber nafnið Ágústarsafn, er meðal annars að finna allar útgáfur Biblíunnar, frá Guðbrandsbiblíu til nútímans, og úrval fágætra höfuðrita íslenskra bókmennta. Fágætisbókasafnið er meðal þess sem finna má í bókasafni Vestmannaeyja sem á sér langa sögu en það var stofnað í júní árið 1862.

Auk fágætisbókasafnsins eru á safninu bækur fyrir alla aldurshópa, bæði skáldrit og fræðibækur, á íslensku og erlendum tungumálum. Hluti safnkosts er einungis til nota á bókasafninu sjálfu en þar er meðal annars hægt að setjast niður og skoða nýjustu tímaritin.