Veitingastaðurinn SLIPPURINN var stofnaður árið 2012 í Magna húsinu, elsta steinsteypta húsi í Vestmannaeyjum sem skipar stóran þátt í sögu Vestmannaeyja

Áður var þar starfrækt vélsmiðjan Magni sem þjónaði gamla bátaslippnum sem var staðsettur fyrir aftan húsið. Vélsmiðjan hafði verið hætt í 30 ár áður en við fjölskyldan tókum við húsnæðinu.

Indíana hannaði veitingastaðinn með það að leiðarljósi að virða fyrri starfsemi hússins og hafa hönnunina látlausa en samt hlýlega. Staður með gott andrúmsloft, þar sem fólki líður vel.

Við erum öll frá eyjunni Heimaey. Við elskum eyjuna og eyjarnar í kring, samfélagið, okkar smábirgja og hrávörur í nærumhverfi. Við vinnum með smáframleiðendum, sjómönnum og bændum. Týnum villtar jurtir og sjávargrös og ræktum það sem er erfitt að fá annarsstaðar.

Matargerðin okkar er bæði mjög staðbundin og árstíðarbundin og matseðillinn breytist viku frá viku frekar en á nokkra mánaða fresti eftir hráefnum sem hægt er að fá hverju sinni. Við tvinnum saman gömlum hefðum við nýjar ferskar aðferðir og viljum gera hversdagslegum íslenskum hráefnum hátt undir höfði.

Við óskum að gestir okkar skynji ástríðu að baki því að búa til veitingastað af þessari gerð, stað sem við viljum að bæjarbúar geti verið stoltir af.