Viking Tours býður upp á tvær tegundir ferða, annars vegar hringferð umhverfis Heimaey og hins vegar Surtseyjarferð. Í báðum ferðum fá börn 9 ára og yngri að koma með frítt.

Í hringferðinni um Heimaey gefst þátttakendum kostur á að sjá litríka hella, yngstu eyjuna Surtsey ásamt öðrum eyjum Vestmannaeyjaklasans og fjölmörg fuglabjörg. Fjölbreyttum fuglategundum bregður fyrir og jafnvel hvölum, ef heppnin er með í för.

Síðasta viðkoma ferðarinnar er í Klettshelli sem er þekktur fyrir sinn einstaka hljómburð. Það er aldrei að vita nema þar heyrist hljóðfæraleikur. Hringferðin tekur 1,5 klukkustundir og yfir sumartímann eru skipulagðar ferðir tvisvar á dag, klukkan 11 og klukkan 16.

Hin ferðin sem Viking Tours býður er Surtseyjarferð. Á leið til og frá Surtsey er siglt framhjá tólf eyjum sem allar eru heimili fjölmargra fuglategunda. Ekki er óalgengt að hvalir sjáist í þessari ferð, til að mynda háhyrningar sem oft halda til á þessum slóðum.

Hápunktur ferðarinnar er að sjálfsögðu Surtsey sjálf. Þar er þó ekki farið í land þar sem einungis vísindamenn hafa heimild til þess. Surtseyjarferðin er í boði frá 15. maí til 31. ágúst og tekur um 3,5 klukkustundir.

Auk bátsferða býður Viking Tours upp á Eldfjallagöngu á Eldfell, sem er yngsta eldfjallið í Vestmannaeyjum.

Hér má sjá merkta leið á Eldfell, ásamt mörgum fleiri gönguleiðum á Heimaey

Ferðin á Eldfell hefst hjá Viking Tours þaðan sem gengið er á Skansinn, sem er fornt virki. Leiðin liggur svo eftir kanti nýja hraunsins og upp á topp Eldfells sem myndaðist í eldgosinu 1973. Gangan endar í miðbænum en hún tekur um 3 klst. og er 5–6 kílómetrar.

Hægt er að bóka ferðir, bæði með Rib Safari og Viking Tours, á bookingwestmanislands.is