Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum er haldin fyrstu helgi ágústmánaðar ár hvert en hún er stærsta útihátíð landsins

Það er einstök upplifun að vera í Eyjum þessa helgi, taka þátt í gleðinni og finna þá samkennd sem myndast á meðal Eyjamanna og gesta þeirra meðan á Þjóðhátíð stendur.

Þjóðhátíð er samofin sögu eyjanna og er sannkallað sameiningartákn Eyjamanna, með öllum sínum hefðum og siðum. Hún var fyrst haldin sunnudaginn 2. ágúst árið 1874 í Herjólfsdal. Þá mættu í dalinn um 400 manns um hádegisbil, reistu tjöld við suðurhlið tjarnarinnar og hlóðu veisluborð úr torfi og grjóti vestan við tjaldbúðirnar. Tjöldin og Herjólfsdalur voru prýdd fánum og borðum. Dansleikur fór svo fram undir berum himni með söngi og tralli, sem stóð fram undir miðnætti.

Á næstu árum var Þjóðhátíð haldin nokkrum sinnum og með tímanum þróaðist hún svo, að kappróður varð einn dagskrárliða. Eftir kappróðurinn var gengin skrúðganga inn í dalinn og hann skreyttur. Flutt var minni konungs, Íslands og Vestmannaeyja, og hófust þá íþróttaviðburðir: glíma, kapphlaup og fleira. Síðar um kvöld voru kaffiveitingar og sódavatn á boðstólum í tjöldunum.

Frá Þjóðhátíð árið 1901 hefur hún verið haldin nær árlega og enn er haldið í þær hefðir sem sköpuðust fyrir öllum þessum árum. Heimamenn slá upp hvítum tjöldum, mynda götur og skapa smásamfélag í dalnum þessa helgi, þar sem allt er til alls og gestrisnin í fyrirrúmi. Vinsælustu hljómsveitir landsins stíga á stokk og gleðja hátíðargesti allan sólarhringinn, auk þess að flugeldasýning, brenna á Fjósaklett, blysin og brekkusöngur er meðal þess sem ber fyrir augu.

Allt eru þetta atriði sem gera Þjóðhátíð að ógleymanlegri upplifun, sem fjöldi fólks, bæði gesta og heimamanna, láta aldrei framhjá sér fara.